Hólmbert skoraði í toppslagnum

Hólmbert Aron Friðjónsson að skora fyrir Aalesund.
Hólmbert Aron Friðjónsson að skora fyrir Aalesund. Ljósmynd/Aalesund

Aalesund hafði betur á móti Viking á útivelli, 2:0, í toppslag norsku B-deildarinnar í fótbolta í dag. Hólmbert Aron Friðjónsson kom Aalesund yfir með skallamarki á 38. mínútu eftir sendingu Arons Elís Þrándarsonar og undirbúning Adams Arnar Arnarsonar.

Hólmbert fór af velli í hálfleik vegna meiðsla, Aron Elís lék fyrsta klukkutímann og Adam allan leikinn fyrir Aalesund. Daníel Leó Grétarsson var ekki í leikmannahópnum vegna meiðsla.

Aalesund er í toppsæti deildarinnar með 23 stig eftir níu leiki og Viking í 2. sæti með 19 stig en bæði liðin féllu úr úrvalsdeildinni síðasta haust.

Hólmbert er búinn að skora 7 mörk fyrir Aalesund í fyrstu níu umferðunum og er næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert