Meidd Sara sá gullið renna úr greipum

Sara Björk í baráttu við Sarah Bouhaddi markvörð Lyon í …
Sara Björk í baráttu við Sarah Bouhaddi markvörð Lyon í Kiev í dag. AFP

Sara Björk Gunnarsdóttir fór af velli vegna hásinarmeiðsla snemma í seinni hálfleik, í stöðunni 0:0, og varð að horfa upp á liðsfélaga sína í Wolfsburg tapa í framlengingu gegn Lyon í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu, 4:1.

Þetta er þriðja árið í röð sem Lyon vinnur titilinn en það hefur engu liði tekist áður, og þetta er jafnframt í fimmta sinn alls sem frönsku meistararnir vinna keppnina, sem er líka met.

Jafnræði var með liðunum á meðan Sara var inni á vellinum og færi sköpuðust á báða bóga, en áfallið dundi á íslenska landsliðsfyrirliðanum þegar hásin hennar gaf sig á 55. mínútu. Hásinin mun ekki hafa slitnað en trosnað. Liðsfélagar Söru áttuðu sig strax á alvarleika málsins og hópuðust til hennar til að stappa í hana stálinu, en strax var ljóst að hún gæti ekki haldið áfram leik.

Sara var studd inn til búningsklefa þar sem hún fékk aðhlynningu og kom svo og fékk sér sæti á varamannabekknum rétt áður en flautað var til loka venjulegs leiktíma, en þá var staðan enn markalaus og því gripið til framlengingar.

Pernille Harder, danska markadrottningin, kom Wolfsburg yfir upp á sitt einsdæmi þegar hún skoraði utan teigs á þriðju mínútu framlengingar. Eftir það snerist leikurinn hins vegar upp í sannkallaða martröð fyrir Wolfsburg.

Þjálfari Lyon skipti hollensku eldingunni Shanice van de Sanden strax inn á, og hún átti eftir að gera gæfumuninn, en ekki síður skipti máli að Alexandra Popp fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 96. mínútu. Sjö mínútum síðar var staðan orðin 3:1 fyrir Lyon!

Amandine Henry, sem átti frábæran leik, sá um að jafna metin fyrir Lyon og á meðan að leikmenn Wolfsburg voru að jafna sig á áfallinu komst Van de Sanden upp að endamörkum og náði að renna boltanum til hliðar á Eugénie Le Sommer sem skoraði af stuttu færi. Van de Sanden setti aftur í fluggírinn skömmu síðar og lagði upp mark fyrir hina norsku Ödu Hegerberg sem varð markadrottning keppninnar með 15 mörk.

Áður en leiknum lauk átti Camille Abily eftir að koma inn á, í sínum 81. leik í Meistaradeildinni en það er met, og skora laglegt lokamark leiksins.

Wolfsburg 1:4 Lyon opna loka
120. mín. Leik lokið Lyon er Evrópumeistari, þriðja árið í röð. Sara og liðsfélagar hennar fá silfur, og það er eitthvað sem Íslendingar geta engu að síður verið afar stoltir af.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert