Sara klár í að taka víti í dag

Sara Björk fagnar marki með Wolfsburg. Hún hefur skorað sex …
Sara Björk fagnar marki með Wolfsburg. Hún hefur skorað sex mörk í Meistaradeildinni í vetur, í átta leikjum, og er þriðja markahæst í keppninni. Ljósmynd/@VfL_Wolfsburg

„Ég væri endilega til í að taka spyrnu,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir aðspurð hvort hún myndi vilja taka vítaspyrnu ef til vítaspyrnukeppni kæmi í úrslitaleik Wolfsburgar og Lyon í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í Kiev í dag.

Lyon hefur orðið Evrópumeistari síðustu tvö ár, í bæði skiptin eftir sigra í vítaspyrnukeppni, árið 2016 gegn Wolfsburg en í fyrra gegn PSG. Það er því allt eins víst að gripið verði til vítaspyrnukeppni á Valeri Lobanovski-leikvanginum í dag en leikurinn hefst kl. 16 að íslenskum tíma.

Sara og stöllur hennar fögnuðu sigri í vítaspyrnukeppni í bikarúrslitaleiknum í Þýskalandi um helgina þar sem liðið vann Bayern München. Sara lék allan leikinn og framlenginguna en var ekki ein þeirra sem tóku víti.

„Þjálfarinn valdi leikmenn og það var bara fínt, en ég væri alveg til í að taka víti núna ef til þess kæmi,“ sagði Sara í spjalli við mbl.is í Kiev.

Blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is er í Kiev og flytur fréttir tengdar Söru, undirbúningi og eftirmálum úrslitaleiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert