Sara leikið flestar mínútur

Sara Björk fagnar einum fjölmargra sigra Wolfsburg í vetur.
Sara Björk fagnar einum fjölmargra sigra Wolfsburg í vetur. Ljósmynd/Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir er sá útileikmaður Wolfsburg sem leikið hefur flestar mínútur á leiktíðinni sem senn er að ljúka. Wolfsburg mætir Lyon í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í dag kl. 16 og á eftir tvo leiki í þýsku 1. deildinni sem liðið hefur þó þegar unnið.

Sara er að ljúka sínu öðru tímabili í liði Wolfsburg. Hún hefur í vetur leikið 19 af 20 deildarleikjum liðsins, alla í byrjunarliði, auk fjögurra leikja í bikarkeppninni sem Wolfsburg endaði á að vinna eftir framlengdan úrslitaleik og vítaspyrnukeppni um síðustu helgi. Þá hefur hún leikið átta leiki í Meistaradeildinni. Í einum þeirra, heimaleik gegn Fiorentina eftir að Sara hafði skorað tvö mörk í útileiknum við ítölsku meistarana, kom hún inn á sem varamaður í fyrsta og eina sinn á leiktíðinni.

Alls hefur Sara leikið 2.548 mínútur fyrir Wolfsburg á leiktíðinni, og þá eru ótaldar mínúturnar sem hún hefur leikið með íslenska landsliðinu. Hin sænska Nilla Fischer, fyrirliði Wolfsburg, er næst á eftir henni hvað mínútur varðar en hún hefur leikið 2.491 mínútu í vörn liðsins. Markvörðurinn Almuth Schult hefur þó leikið flestar mínútur eða alls 2.910 mínútur.

Blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is er í Kiev og flytur fréttir tengdar Söru, undirbúningi og eftirmálum úrslitaleiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert