Gareth Bale stal stenunni

Gareth Bale fagnar síðasta marki Real í kvöld.
Gareth Bale fagnar síðasta marki Real í kvöld. AFP

Varamaðurinn Gareth Bale stal senunni þegar Real Madrid sigraði Liverpool 3:1 í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á Ólympíuleikvanginum í Kiev í Úkraínu. Madrídingar fögnuðu því sigri í keppninni þriðja árið í röð. 

Úrslitaleikurinn telst sjálfsagt með þeim dramatískari í sögu keppninnar af ýmsum ástæðum. Skærasta stjarna Liverpool, Mo Salah, fór meiddur af leikvelli eftir hálftíma leik. Meiddist á öxl eftir að Sergio Ramos klemmdi hendina á Salah þegar þeir féllu við. Nokkrum mínútum síðar fór Dani Carvajal einnig meiddur af velli hjá Real. Fyrri hálfleikur var markalaus og fyrir utan þessi tíðindi þá gerðist helst það að mark var dæmt af Real vegna rangstöðu. 

Mohamed Salah fer af velli vegna meiðsla og Cristiano Ronaldo …
Mohamed Salah fer af velli vegna meiðsla og Cristiano Ronaldo hughreystir hann. AFP

Fjörið byrjaði snemma í síðari hálfleik þegar Karim Benzema skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Real Madrid á 51. mínútu. Markið var vægast sagt slysalegt. Frakkinn slapp aleinn inn fyrir vörn Liverpool en sendingin var of löng og beint í fangið á Loris Karius. Þegar markvörðurinn kastaði boltanum út, og ætlaði að henda á næsta mann, þá setti Benzema út fótinn. Boltinn fór af fæti Benzema og í netið. Benzema fór ekki í Karius og setti hann ekki úr jafnvægi. Dómarinn mat atvikið væntanlega þannig að Benzema hafi einfaldlega komist inn í sendinguna þótt hann væri staddur nærri markverðinum. Benzema hafði skorað markið sem dæmt var af í fyrri hálfleik. 

Karim Benzema fagnar fyrsta marki leiksins.
Karim Benzema fagnar fyrsta marki leiksins. AFP

Leikmenn Liverpool voru ekki lengi í sárum og Sadio Mané jafnaði á 55. mínútu af stuttu færi eftir hornspyrnu og skalla frá Lovren. 

Sadio Mane fagnar marki sínu fyrir Liverpool í kvöld.
Sadio Mane fagnar marki sínu fyrir Liverpool í kvöld. AFP

Á 61. mínútu var Gareth Bale skipt inn á og hann reyndist örlagavaldur ásamt Karius markverði sem ekki hafði gert sín síðustu mistök í þessum úrslitaleik. Bale skoraði stórglæsilegt mark á 64. mínútu með hjólhestaspyrnu í samskeytin utarlega úr vítateignum. Mark sem Real Madrid hetjan Hugo Sanchez hefði verið stoltur af.

Bale skoraði aftur og gerði út um leikinn á 83. mínútu. Reyndi þá fyrir sér af rúmlega 30 metra færi. Skotið virtist sakleysilegt, bæði beint á markið og í höfuðhæð. Karius ætlaði að slá boltann frá en tókst ekki að stöðva skotið. Afar slæm mistök hjá þýska markverðinum og það í úrslitaleik. Bale getur hins vegar leyft sér að gleðjast en í vetur var hann ítrekað orðaður við önnur félög og framtíð hans hjá Real þótti ekki björt.

Zinedine Zidane og Luka Modric fagna sigrinum.
Zinedine Zidane og Luka Modric fagna sigrinum. AFP

Real Madrid sló Bayern München úr leik í undanúrslitum keppninnar, samanlagt 4:3, á meðan Liverpool vann Roma frá Ítalíu, 7:6 í hörku einvígi. Í undanúrslitunum höfðu mistök markvarðar andstæðinganna einnig örlagavald þegar Real Madrid sló út Bayern. Lukkan hefur verið með liðinu á lokaspretti keppninnar en einnig hefur reynsla leikmanna sitt að segja sem margir hverjir fagna nú sigri í keppninni þriðja árið í röð. Síðast gerðist það þegar Bayern München sigraði 1974-1976. 

Trent Alexander-Arnold og Marcelo í leiknum í Kiev í kvöld.
Trent Alexander-Arnold og Marcelo í leiknum í Kiev í kvöld. AFP
Real Madrid 3:1 Liverpool opna loka
90. mín. Leik lokið Real sigraði 3:1.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert