Hjörtur framlengir við Brøndby

Hjörtur Hermannsson hefur skrifað undir nýjan samning við Brøndby í …
Hjörtur Hermannsson hefur skrifað undir nýjan samning við Brøndby í Danmörku. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hjörtur Hermannsson framlengdi í dag samning sinn við knattspyrnufélagið Brøndby sem leikur í dönsku úrvalsdeildinni. Samningurinn er til þriggja ára eða 2021. Troels Bech, íþróttastjóri Brøndby, staðfesti þetta í samtali við mbl.is.

„Hjörtur er frábær leikmaður sem hefur bætt sig mikið síðan hann kom til Brøndby. Í dag er hann lykilmaður í okkar liði sem hefur að bera gríðarlega mikla samkeppni um stöður og þrátt fyrir það spilar hann flesta leiki. Það er því frábært að hann verði hjá okkur næstu þrjú árin hið minnsta,“ sagði Bech er blaðamaður náði tali af honum.

Hann hefur sýnt það, að hann getur spilað á þessu stigi

Hjörtur er 23 ára gamall varnarmaður og uppalinn í Árbænum en fluttist ungur til Hollands og var þar á mála hjá PSV. Sumarið 2016 gekk hann svo til liðs við Brøndby eftir að hafa verið í leikmannahópi íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi. Í Danmörku hefur hann fest sig í sessi í hjarta varnarinnar og varð danskur bikarmeistari í síðasta mánuði áður en liðið rétt missti af danska meistaratitlinum.

„Tími hans í Hollandi gerði honum auðvitað vel en það sem hann vantaði þar voru keppnisleikir á háu stigi. Núna er hann að spila þá, bæði í dönsku úrvalsdeildinni og Evrópukeppnum. Hann hefur sýnt það, að hann getur spilað á þessu stigi og við trúum því að hann geti haldið áfram að bæta sig.“

Kom okkur á óvart að hann er ekki í Rússlandi

Hjörtur hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og á að auki sjö A-landsleiki og hefur skorað í þeim eitt mark. Hann var í landsliðshópnum sem tók þátt á lokakeppni EM í Frakklandi fyrir tveimur árum en var ekki valinn í hópinn sem tekur nú þátt á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

„Það kom okkur á óvart að hann er ekki í Rússlandi um þessar mundir,“ sagði Bech. „Við hefðum svo sannarlega óskað þess, en fyrst hann er hér þá fáum við enn fleiri tækifæri til að vinna með honum og hjálpa honum að bæta sig.“

Hjörtur Hermannsson sækir að Miguel Trauco í vináttulandsleik Íslands og …
Hjörtur Hermannsson sækir að Miguel Trauco í vináttulandsleik Íslands og Perú í mars á þessu ári. AFP

Hann gæti þó hæglega komist aftur inn í myndina hjá landsliðinu, haldi hann áfram að standa sig vel með Brøndby, sem og að bæta sig.

„Það er auðvitað ekki okkar ákvörðun en við getum vel séð það fyrir. Nú getur hann haldið áfram að bæta sig sem leikmaður og ég tel hann eiga góða möguleika á að vera valinn í framtíðinni.“

Drifkrafturinn minnkar ekki við mótlæti

Að lokum spurði blaðamaður Bech stuttlega út í afar sorglegan endir á síðasta tímabili liðsins. Brøndby, sem hefur ekki orðið danskur meistari í 13 ár, var með pálmann í höndum sér fyrir næstsíðustu umferðina. Þar gerði Kjartan Henry Finnbogason þeim mikinn grikk er hann skoraði tvö mörk á lokamínútum leiks Horsens og Brøndby.

Að lokum varð Midtjylland meistari en það var þó hugg­un harmi gegn að Brøndby varð bikar­meist­ari en Hjörtur tók þar iðulega þátt.

„Þetta voru stærstu vonbrigði félagsins í fleiri, fleiri ár og nú þurfum við að núllstilla okkur og undirbúa fyrir nýtt tímabil og nýjar áskoranir. Ég tel okkur hafa sterkara lið núna og það er svo sannarlega markmið að taka þetta lokaskref sem okkur tókst ekki að taka á síðasta tímabili.“

Brøndby er svo stór og kröftugur klúbbur. Það er svo ótrúlega mikið af drífandi fólki sem hefur ástríðu fyrir þessu félagi og sú ástríða og sá drifkraftur minnkar ekkert við mótlæti,“ sagði hann að endingu.

Hjörtur Hermannsson í leik með Brøndby.
Hjörtur Hermannsson í leik með Brøndby. Ljósmynd/Brøndby
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert