Helgi Kolviðsson að taka við indversku liði?

Helgi Kolviðsson.
Helgi Kolviðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins, er að taka við þjálfun FC Pune City í indversku efstu deildinni í knattspyrnu. Þetta fullyrðir indverski miðillinn Khel Now.

Helgi hefur aðstoðað Heimi Hallgrímsson hjá landsliðinu undanfarin tvö ár og var í stóru hlutverki í Rússlandi í sumar er Ísland tók þátt í heimsmeistaramóti í fyrsta sinn. Heimir tilkynnti í morgun að hann myndi hætta með landsliðinu í næsta mánuði og var Helgi talinn koma til greina sem eftirmaður hans en svo virðist ekki vera ef marka má þessar fregnir.

Helgi er 46 ára gamall og kom víða við sem leikmaður en hann lék lengst af í Þýskalandi og Austurríki. Hann var svo bæði aðal- og aðstoðarþjálfari liða í þeim löndum árin áður en hann gekk til liðs við landsliðið árið 2016.

Pune City hafði ráðið Brasilíumanninn Marcos Paqueta til að taka við þjálfun liðsins en hann rifti þeim samningi aðeins nokkrum vikum seinna eftir að hann fékk gott tilboð í heimalandinu. Liðið horfði þá m.a. til fyrrverandi knattspyrnustjóra Rangers í Skotlandi, Pauls Le Guens, en hefur að lokum snúið sér að Helga.

Sjá viðbrögð Helga:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert