Matthías í hópnum gegn Val

Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson. Ljósmynd/rbk.no

Matthías Vilhjálmsson gæti spilað sinn fyrsta leik í ellefu mánuði í kvöld þegar Rosenborg tekur á móti Val í seinni leik liðanna í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu á Lerkendal-vellinum í Þrándheimi.

Matthías sleit krossband í hné í leik með Rosenborg í ágúst 2017 en hann hafði þá skorað sextán mörk fyrir liðið á tímabilinu.

„Ég held að við getum ekki búist við því að Matti spili í meira en tíu mínútur en það er í réttu framhaldi af uppbyggingu hans að undanförnu að hann sé kominn inn í leikmannahópinn á ný. Ef allt fer eftir áætlun og ekkert bakslag á sér stað gæti hann farið að spila með varaliðinu í lok mánaðarins áður en hann verður klár í byrjunarliðið hjá okkur í ágúst. Það er nauðsynlegt að láta hann fá spilæfingu hægt og rólega," segir Kåre Ingebrigtsen þjálfari Rosenborg við heimasíðu félagsins.

Valur vann óvæntan sigur á Rosenborg, 1:0, í fyrri leik liðanna á Hlíðarenda í síðustu viku en viðureignin á Lerkendal hefst kl. 17.45 í dag og verður fylgst með leiknum á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert