Þjóðverjar án fyrirliðans á Laugardalsvelli?

Dzsenifer Marozsán með boltann og Sara Björk Gunnarsdóttir eltir hana …
Dzsenifer Marozsán með boltann og Sara Björk Gunnarsdóttir eltir hana í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor. AFP

Útlit er fyrir að fyrirliði þýska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og ein besta knattspyrnukona heims, Dzsenifer Marozsán, missi af hinum þýðingarmikla leik Íslands og Þýskalands í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer á Laugardalsvellinum 1. september.

Marozsán glímir við lungnasjúkdóm og óvíst er hvenær hún getur stigið inn á fótboltavöllinn á ný, en þýska knattspyrnusambandið skýrði frá þessu fyrir stundu.

Maroszán er 26 ára gömul, fædd í Ungverjalandi en búsett í Þýskalandi frá fjögurra ára aldri, og hefur verið í lykilhlutverki í þýska landsliðinu undanfarin ár. Þar á hún að baki 86 landsleiki og hefur skorað í þeim 32 mörk. Hún var kjörin knattspyrnukona ársins í Þýskalandi 2017, besti leikmaðurinn í frönsku deildinni 2016-17 og hefur þrjú undanfarin ár hafnað í þriðja sæti í kjörinu á bestu knattspyrnukonu Evrópu.

Undanfarin tvö ár hefur hún unnið Meistaradeild Evrópu með Lyon frá Frakklandi og var í liðinu sem vann Söru Björk Gunnarsdóttur og samherja í Wolfsburg 4:1 í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor.

Ísland og Þýskaland heyja einvígi um hvort liðanna kemst beint í lokakeppni HM 2019 en Ísland myndi tryggja sér sæti þar með sigri í leiknum 1. september. Ísland vann mjög óvæntan útisigur á Þjóðverjum, 3:2, í fyrri leik liðanna í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert