Vissi ekki almennilega hvað hafði gerst

Guðmundur Kristjánsson er spenntur fyrir að mæta Lahti í síðari …
Guðmundur Kristjánsson er spenntur fyrir að mæta Lahti í síðari leik liðanna. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Ég hlakka til leiksins. Við erum með þetta í höndum okkar og erum í göðri stöðu. Við ætlum að klára þetta og komast áfram,“ sagði Guðmundur Kristjánsson, leikmaður FH, í samtali við mbl.is á æfingu liðsins í gær. 

FH leikur síðari leik sinn við Lahti frá Finnlandi í forkeppni Evrópudeildarinnar annað kvöld. FH stendur vel að vígi eftir 3:0-sigur í fyrri leiknum. Guðmundur stefnir á að spila leikinn á morgun, þrátt fyrir að hann hafi fengið þungt högg og stóran skurð í fyrri leiknum. Sauma þurfti tíu spor í höfuð Guðmundar. 

„Ég verð örugglega vafinn vel og með eitthvert túrban svo þetta rifni ekki upp aftur. Ég held þetta ætti að vera öruggt, annars fer ég yfir þetta með læknunum fyrir leik.“

„Við áttum ekki alveg von á svona öruggum sigri en miðað við hvernig þetta þróaðist var það sanngjarnt. Við bjuggumst kannski við 1:0-útisigri svo við erum mjög sáttir við 3:0. Við áttum fullt af góðum sóknum og þetta var góður útisigur.“

FH var sterkari aðilinn á útivelli og gefur 3:0 fína mynd af hvernig leikurinn þróaðist. 

„Þeir sköpuðu ekki mikið og við stóðum vel. Þegar þeir voru meira með boltann endaði það oftast með löngum bolta sem við réðum vel við. Þetta var fyrirsjáanlegt og viðráðanlegt. Við vorum búnir að kortleggja þá vel. Vonandi verður það þannig á fimmtudaginn (á morgun).“

Guðmundur segist ekki muna mikið eftir höfuðhögginu, en líðan hans í dag er góð. 

„Ég vissi ekki almennilega hvað hafði gerst fyrr en ég spurði eftir á. Logi kom með flottan bolta sem ég ætlaði að skalla inn og allt í einu ligg ég í jörðinni. Það hafði komið varnarmaður á hliðinni sem ég sá ekki og við skullum saman.

Ég ætlaði að halda áfram en eftir á að hyggja var það ekki sniðugt. Ég vissi ekki að þetta væri svona stór skurður. Ég var með hausverk fyrstu tvo dagana en núna líður mér vel, þetta er allt í góðu lagi,“ sagði Guðmundur að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert