Arnór Ingvi lagði upp sigurmark

Arnór Ingvi Traustason spilaði allan leikinn með Malmö í dag …
Arnór Ingvi Traustason spilaði allan leikinn með Malmö í dag og stóð sig vel. mbl.is/Eggert

Örebro tók á móti Malmö í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en leiknum lauk með 2:1-sigri gestanna. Carlos Strandberg kom Malmö yfir á 48. mínútu en Kennedy Igboananike brenndi af vítaspyrnu fyrir heimamenn á 68. mínútu.

Filip Rogic fylgdi hins vegar spyrnunni eftir og jafnaði metin fyrir Örebro og staðan orðin 1:1. Carlos Strandberg var svo aftur á ferðinni á 73. mínútu þegar hann skoraði sigurmark leiksins eftir sendingu frá Arnóri Ingva Traustasyni. Keflvíkingurinn spilaði allan leikinn í fremstu víglínu með Malmö í dag og stóð sig vel.

Örebro er í áttunda sæti deildarinnar með 19 stig en Malmö er í sjötta sætinu með 22 stig, átta stigum frá toppliði AIK en Malmö hefur leikið fimmtán leiki í deildinni í sumar en AIK hefur spilað fjórtán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert