Kominn á ný í félag þar sem krafan er að vinna titla

Kjartan Henry Finnbogason var í baráttu um sæti í HM-hópi …
Kjartan Henry Finnbogason var í baráttu um sæti í HM-hópi Íslands í vor og var einn þeirra sem voru til taks ef forföll yrðu í hópnum. Hér má sjá hann í landsleik Íslands og Perú í fyrra. AFP

Knattspyrnumaðurinn Kjartan Henry Finnbogason kom mörgum á óvart þegar hann ákvað að skrifa undir samning við ungverska stórliðið Ferencváros eftir að hafa leikið með Horsens í Danmörku frá 2014. Hann verður þar með fyrsti Íslendingurinn sem leikur sem atvinnumaður í knattspyrnu í Ungverjalandi.

Kjartan hefur þegar spilað fyrstu tvo leikina í undankeppni Evrópudeildarinnar en fyrsti leikurinn í ungversku deildinni er heimaleikur gegn Diósgyör á morgun, sunnudag.

Kjartan mun búa í Búdapest en Ferencváros verður 120 ára á næsta ári og ætlar sér að bæta þriðju stjörnunni við með sínum 30. deildartitli næsta vor. Kjartan fann síðast fyrir álíka pressu á að vinna titla þegar hann spilaði með KR í úrvalsdeildinni og er spenntur fyrir nýju umhverfi í landi sem hann þekkir lítið til.

Vissi ekkert um ungverskan fótbolta

„Ég var búinn að taka ákvörðun um það að ég myndi yfirgefa Horsens í lok tímabilsins. Ég vildi prófa eitthvað alveg nýtt og ég var staddur á Spáni, í fríi með fjölskyldunni, þegar ég fékk símtal frá umboðsmanni mínum. Hann tjáði mér að Ferencváros hefði áhuga á því að semja við mig og ég skal alveg viðurkenna það að ég vissi sama og ekkert um ungverskan fótbolta. Ég fylgist ekkert sérstaklega mikið með knattspyrnu, þótt ég hafi sjálfur atvinnu af því að spila hana.

Þegar ég fór svo að fletta upp liðinu á veraldarvefnum sá ég strax að þetta er risafélag með mikla sögu. Þjálfari liðsins, Thomas Doll, hafði svo samband við mig stuttu síðar og það tók hann sirka 20 mínútur að sannfæra mig um að rétt væri að semja við félagið. Eftir þetta gerðust hlutirnir mjög hratt. Sex dögum síðar var ég mættur til Ungverjalands og búinn að skrifa undir. Umgjörðin í kringum félagið er frábær, völlurinn hérna er mjög flottur og stuðningsmennirnir lifa og deyja fyrir félagið.“

Eftir undirskriftina fékk Kjartan lítinn tíma til þess að melta ákvörðun sína en hann flaug beint til Austurríkis til þess að hitta nýja liðsfélaga sína sem voru staddir í æfingaferð í Baden. Hann var í byrjunarliðinu í fyrri leiknum gegn Maccabi Tel Aviv í undankeppni Evrópudeildarinnar og kom það honum sjálfum á óvart.

Sjá viðtalið við Kjartan Henry í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert