Of góður með sig og nú samningslaus

Max Meyer í leik með Schalke.
Max Meyer í leik með Schalke. AFP

Þýski miðjumaðurinn Max Meyer er enn án samning þegar stutt er í að knattspyrnutímabilið hefjist á nýjan leik en blaðamaður Sky í Þýskalandi segir Meyer engum geta kennt um nema sjálfum sér.

Meyer er 22 ára og uppalinn hjá Schalke í þýskalandi en lék tæpa 200 leiki fyrir liðið á árunum 2012 til 2018. Hann var lengi talinn einn efnilegasti knattspyrnumaður Evrópu og var um tíma orðaður við Liverpool og Tottenham á Englandi.

Meyer leyfði samningi sínum hjá Schalke að renna út í sumar í von um að geta fengið risasamning hjá stórliði en ekkert hefur ræst úr því. Þýski íþróttafréttamaðurinn Max Bielefeld segir Meyer einfaldlega of góðan með sig.

„Meyer er góður leikmaður en hann hefur eitt stórt vandamál, hann er of góður með sjálfan sig. Allir í kringum hann, umboðsmaðurinn, fjölskyldan og þjálfarar í yngri flokkum sögðu honum að hann væri „hinn þýski Messi“. Að lokum byrjaði hann að trúa því sjálfur,“ sagði Bielefeld.

„Hann heldur að hann sé heimsklassaleikmaður sem á skilið að fá átta milljónir evra í árslaun (um milljarður íslenskra króna) en ekkert stórlið vill hann. Þau lið sem hafa áhuga geta svo ekki staðist launakröfurnar.“

Að lokum telur Bielefeld að umboðsmaður Meyer sé að stóla á að eitthvert ensku liðanna taki sénsinn á að semja við hann en mikill peningur rennur til ensku úrvalsdeildarinnar.

„Umboðsmaðurinn treystir á ensku úrvalsdeildina og að lið þar hafi svo mikinn pening til að brenna að það semji við hann fyrir gluggalok. Hann hefði átt að vera áfram hjá Schalke að bæta sig sem leikmaður, hann er ekki peninganna virði en í þessum markaði veit maður aldrei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert