Atlético fór illa með Real í framlengingu

Leikmenn Atletíco Madrid fagna í Tallinn í Eistlandi í kvöld.
Leikmenn Atletíco Madrid fagna í Tallinn í Eistlandi í kvöld. AFP

Real Madrid og Atlético Madrid mættust í Meistarabikar Evrópu í knattspyrnu á Lilleküla-vell­in­um í Tallinn í Eistlandi í kvöld en leiknum lauk með 4:2-sigri Atlético Madrid eftir framlengdan leik. Í leiknum mætast ríkjandi Meistaradeildarmeistarar og ríkjandi Evrópudeildarmeistarar UEFA.

Það var Diego Costa sem kom Alético yfir strax á 1. mínútu leiksins með frábæru einstaklingsframtaki en Karim Benzema jafnaði metin fyrir Real Madrid á 27. mínútu með skallamarki og staðan því 1:1 í hálfleik. 

Sergio Ramos kom Real Madrid yfir á 63. mínútu með marki úr vítaspyrnu á 63. mínútu en Diego Costa var aftur á ferðinni á 79. mínútu þegar hann jafnaði metin fyrir Atlético. Ekki voru fleiri mörk skoruð í venjulegum leiktíma og því var gripið til framlengingar.

Saúl kom Atlético yfir þegar níu mínútu voru liðnar af framlengingunni og Koke bætti fjórða marki Atlético við, á 104. mínútu. Leikmenn Real Madrid reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en allt kom fyrir ekki og Atlético Madrid fór því með sigur af hólmi og vann Meistarabikar Evrópu í þriðja sinn í sögu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert