Axel Andrésson til Viking

Axel Andrésson hefur skrifað undir lánssamning við norska liðið Viking.
Axel Andrésson hefur skrifað undir lánssamning við norska liðið Viking. Ljósmynd/Viking FK

Miðvörðurinn Axel Andrésson er genginn til liðs við norska knattspyrnufélagið Viking en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag. Axel skrifar undir lánssamning við norska liðið, sem gildir út leiktíðina, en hann verður 21 árs gamall í janúar á næsta ári. Þá framlengdi hann samning sinn við Reading og er hann nú samningsbundinn félaginu til ársins 2020.

Axel er uppalinn hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ en hann gekk til liðs við Reading, sem leikur í ensku B-deildinni, árið 2016. Hann hefur ekki ennþá spilað aðalliðsleik fyrir félagið en hann var  meðal annars lánaður til Torquay United á síðustu leiktíð.

Axel hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands og á að baki 9 landsleiki með U21 árs landsliðinu þar sem hann hefur skorað 2 mörk.

Viking féll niður í norsku B-deildina síðasta haust og er nú í þriðja sæti deildarinnar og í hörðum slag um að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert