„Verðum að hætta að hugsa um Ronaldo“

Casemiro var niðurlútur í Tallinn í gær eftir tap Real …
Casemiro var niðurlútur í Tallinn í gær eftir tap Real Madrid í Meistarabikar Evrópu. AFP

Casemiro, miðjumaður spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, segir að liðið verði að horfa fram á veginn þrátt fyrir slæmt tap gegn Atlético Madrid í Meistarabikar Evrópu í gær í Tallinn. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 2:2 en Atlético skoraði tvívegis í framlengingu og vann leikinn 4:2.

Cristiano Ronaldo, besti knattspyrnumaður heims, samdi við Juventus í sumar og Casemiro ítrekaði eftir leikinn í gær að liðið geti ekki hugsað of mikið um brotthvarf hans. „Við munum aldrei finna arftaka Ronaldo, hann sýndi það hjá Real Madrid að hann er besti knattspyrnumaður heims.“

„Það er búið og gert, hann er ekki hérna lengur, og við verðum að hætta að hugsa um Ronaldo. Við þurfum að einbeita okkur að núverandi leikmannahópi liðsins og það er mikið af hlutum sem við verðum að bæta og laga fyrir komandi keppnistímabil,“ sagði miðjumaðurinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert