Svekkjandi fyrir Hörð Björgvin

Hörður Björgvin Magnússon í leik með CSKA Moskvu.
Hörður Björgvin Magnússon í leik með CSKA Moskvu. Ljósmynd/CSKA Moskva

Landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður rússneska knattspyrnuliðsins CSKA Moskva, þarf að bíta í það súra epli að missa af leik sinna manna gegn tékkneska liðinu Viktoria Plzen en liðin eigast við í 1. umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í Tékklandi á morgun.

Fram kemur í frétt á vefsíðunni fótbolti.net að Hörður Björgvin verður frá keppni næstu 2-3 vikurnar vegna meiðsla sem hann hlaut í leiknum gegn Ufa um síðustu helgi. Hörður Björgvin gæti einnig misst af leiknum gegn Evrópumeisturum Real Madrid en leikur liðanna fram fer í Moskvu 2. október.

Arnór Sigurðsson, leikmaður 21-árs landsliðsins, er hins vegar heill heilsu og verður væntanlega í leikmannahópi CSKA annað kvöld en líkt og Hörður Björgvin gekk hann í raðir rússneska liðsins í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert