Ajax fór illa með AEK

Nicolás Tagliafico skoraði tvívegis fyrir Ajax gegn AEK í Meistaradeildinni …
Nicolás Tagliafico skoraði tvívegis fyrir Ajax gegn AEK í Meistaradeildinni í kvöld. AFP

Nicolás Tagliafico, leikmaður Ajax, reyndist AEK Aþenu erfiður þegar Ajax tók á móti AEK í Amsterdam í E-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í dag en hann skoraði tvívegis í 3:0-sigri hollenska liðsins. Tagliafico kom Ajax yfir í upphafi síðari hálfleiks og hann var svo aftur á ferðinni í uppbótartíma. Donny van de Beek skoraði annað mark Ajax sem byrjar riðlakeppnina á sigri en ásamt Ajax og AEK leika Benfica og Bayern München í E-riðli keppninnar en þau mætast í kvöld klukkan 19 í Portúgal.

Þá gerðu Shakhtar Donetsk og Hoffenheim 2:2-jafntefli í Úkraínu í F-riðli Meistaradeildarinnar en Hoffeinheim komst tvívegis yfir í leiknum með mörkum frá þeim Florian Grillitsch og Håvard Nordtveit. Ismaily jafnaði metin fyrir Shakhtar á 27. mínútu, 1:1 og Maycon tryggði úkraínska liðinu stig með marki á 81. mínútu. Manchester City leikur í F-riðli keppninnar, ásamt Lyon, og mætast þessi tvö lið á Etihad klukkan 19 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert