Spila á heimaleiki á eigin heimavelli

Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. AFP

Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, er ekki hrifinn af nýjasta útspili forráðamanna spænsku 1. deildarinnar, La Liga, um að spila leiki í Bandaríkjunum á næstu árum. Forráðamenn La Liga gáfu það út í sumar að á næstu fimm árum munu fimm leikir í spænsku 1. deildinni, fara fram í Bandaríkjunum.

Girona mun því taka á móti Barcelona, 26. janúar næstkomandi í Miami, ef áætlanir ganga eftir en bæði leikmannasamtök á Spáni og spænska knattspyrnusambandið hafa mótmælt þessu harðlega og nú hefur Infantino einnig blandað sér í umræðuna.

„Ef ég fengi að ráða myndi ég frekar vilja sjá frábæran MLS-leik í Bandaríkjunum en leik í spænsku 1. deildinni. Í fótbolta virkar það oftast þannig að þú spilar þína heimaleiki á eigin heimavelli, ekki í öðru landi,“ sagði forsetinn brattur.

Infantino bætti því við að FIFA gæti mögulega skorist í leikinn með þessar áætlanir forráðamanna La Liga en til þess þyrftu liðin í deildinni að senda inn formlega kvörtun til Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert