Auðvelt hjá United í Sviss – City tapaði á heimavelli

Anthony Martial og Paul Pogba sáu um markaskorun Manchester United …
Anthony Martial og Paul Pogba sáu um markaskorun Manchester United í kvöld. AFP

Paul Pogba fór mikinn í 3:0-sigri Manchester United á Young Boys í Sviss í H-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld en hann skoraði tvívegis fyrir United í fyrri hálfleik og lagði svo upp þriðja mark liðsins sem Anthony Martial skoraði af stuttu færi úr teignum í síðari hálfleik.

Þá fékk Cristiano Ronaldo að líta beint rautt spjald á 29. mínútu í leik Juventus og Valencia í H-riðlinum en það kom ekki að sök því Miralem Pjanic skoraði tvívegis fyrir Juventus af vítapunktinum í leiknum og lokatölur því 2:0 fyrir Juventus á Spáni í kvöld og United og Juventus því á toppi riðlisins, bæði með 3 stig.

Englandsmeistarar Manchester City töpuðu afar óvænt fyrir Lyon í F-riðli Meistaradeildarinnar á Etihad-vellinum í Manchester þar sem að Lyon komst í 2:0 með mörkum frá þeim Maxwell Cornet og Nabil Fekir. Bernardo Silva minnkaði muninn fyrir City en lengra komust Englandsmeistararnir ekki og lokatölur því 2:1 í Manchester.

Shakhtar Donetsk og Hoffenheim gerðu 2:2 jafntefli fyrr í dag í Úkraínu í hinum leik F-riðils og Lyon fer því á toppinn í riðlinum en City er á botninum án stiga eftir fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Arnór Sigurðsson varð yngsti Íslendingurinn til þess að spila í Meistaradeild Evrópu í kvöld, 19 ára gamall, þegar hann kom inn á sem varamaður hjá CSKA Moskvu í 2:2-jafntefli liðsins gegn tékkneska liðinu Viktora Plzení G-riðli Meistaradeildarinnar í Tékklandi. Michael Krmencik skoraði bæði mörk Plzen í fyrri hálfleik en Fedor Chalov minnkaði muninn fyrir CSKA á 49. mínútu áður en Nikola Vlasic jafnaði metinn fyrir Rússana með marki úr vítaspyrnu á fimmtu mínútu uppbótartíma. Hörður Björgvin Magnússon var ekki með CSKA í leiknum vegna meiðsla.

Í hinum leik G-riðilsins vann Real Madrid 3:0-sigur á Roma á Spáni þar sem þeir Isco, Gareth Bale og Mariano Diaz skoruðu mörk Evrópumeistaranna. Real Madrid er því á toppi riðilsins en Roma er á botninum án stiga.

Þá unnu Þýskalandsmeistarar Bayern München 2:0-sigur á Benfica í E-riðli Meistaradeildarinnar í Portúgal þar sem þeir Robert Lewandowski og Renato Sanches skoruðu mörk þýska liðsins. Ajax vann AEK Aþenu 3:0 í Hollandi í dag og Bayern og Ajax eru því á toppi riðilsins eftir fyrstu umferðina, bæði með 3 stig.

Young Boys 0:3 Man. Utd opna loka
90. mín. Real Madrid er komið í 3:0 gegn Roma á Spáni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert