Ánægður með allt nema úrslitin

Maurizio Sarri var sáttur með frammistöðu lærisveina sinna í kvöld …
Maurizio Sarri var sáttur með frammistöðu lærisveina sinna í kvöld í Grikklandi. AFP

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, var ánægður með sigur liðsins gegn PAOK í Grikklandi í L-riðli Evrópudeildar UEFA í dag en leiknum lauk með 1:0-sigri Chelsea. Willian skoraði eina mark Chelsea á 7. mínútu en mörkin hefðu hæglega getað verið fleiri.

„Við stjórnuðum leiknum allan tímann og sköpuðum helling af færum. Við hefðum átt að nýta þau miklu betur en ég er mjög ánægður með stigin þrjú og frammistöðuna en ég er ekki ánægður með úrslitin. Við verðum að drepa leiki á réttum augnablikum og við gerðum það ekki í kvöld.“

„Morata hefði getað skorað þrjú til fjögur mörk, hann fékk færin til þess en hann skortir sjálfstraust. Það er ekki eitthvað sem ég get hjálpað honum með, því miður. Hann þarf að skora til þess að öðlast sjálfstraust á nýjan leik. Hann kom sér hins vegar í góð færi og þetta var hans besta frammistaða með liðinu síðan ég tók við,“ sagði Sarri í leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert