Lætur liðið horfa aftur á seinni hálfleik

Steven Gerrard, þjálfari Rangers, á hliðarlínunni í kvöld.
Steven Gerrard, þjálfari Rangers, á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Rangers í Skotlandi, var afar sáttur með liðið sitt sem gerði 2:2-jafntefli við Villarreal á Spáni í G-riðli Evrópudeildar UEFA í kvöld en liðið lenti tvívegis undir í leiknum en kom tilbaka í seinni hálfleik á erfiðum útivelli og uppskar gott stig.

„Við erum gott lið þegar við spilum okkar leik og höfum trú á okkur sjálfum. Við getum skapað okkur færi gegn hvaða mótherja sem er. Það eru mikil gæði í liðinu og ég mun láta leikmenn mína horfa aftur á seinni hálfleikinn svo þeir öðlist meiri trú á eigin getu. Þetta eru frábær úrslit fyrir okkur samt sem áður. Ég sagði liðinu í hálfleik að hafa meiri trú á síðasta þriðjungi vallarins og þeir gerðu það.“

„Fyrir leik sagði ég við strákana að við gætum sært hvaða lið sem er í þessum riðli. Að koma hingað og ná í stig er mjög vel gert og ég er stoltur af mínum mönnum. Ég hefði tekið stiginu fagnandi, fyrir leik, þetta er líklega okkar erfiðasti útileikur í riðlakeppninni,“ sagði Gerrard að lokum en Rangers er í riðli með Villarreal, Rapid Wien og Spartak Moskvu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert