Jökull meiddist og leik hætt

Jökull Andrésson er samningsmundinn Reading.
Jökull Andrésson er samningsmundinn Reading. Ljósmynd/Reading FC

Markvörðurinn Jökull Andrésson, sem er á mála hjá Reading en í láni hjá Hungerford á Englandi, var fluttur alvarlega meiddur af velli og á sjúkrahús í leik í forkeppni ensku FA-bikarkeppninnar í knattspyrnu. Leiknum var hætt í kjölfarið.

Hungerford var þá að spila við Wantage Town. Staðan var markalaus þegar Jökull meiddist á 73. mínútu, en hann hlaut mikla aðhlynningu á vellinum af læknum. Eftir um tíu mínútur var hann svo fluttur af velli, færður í sjúkrabíl og fluttur á sjúkrahús en ekki er vitað hvernig staðan á honum er.

Eftir að Jökull hafði verið fluttur af velli var ákveðið að hætta leiknum. Óvíst er hvort leikurinn verður spilaður aftur eða síðasti stundarfjórðungurinn spilaður síðar.

Jökull er fæddur árið 2001 og er bróðir Axels Óskars Andréssonar sem einnig er á mála hjá Reading en er nú á láni hjá Viking Stavanger í Noregi.

Uppfært kl. 20.11:

Mbl.is fékk rétt í þessu upplýsingar um að Jökull sé kominn til meðvitundar og sé vel áttaður. Hann fékk hné mótherja í andlitið með þeim afleiðingum að hann fékk skurð á vör og nokkrar tennur brotnuðu. Hann verður á sjúkrahúsi nótt og fer í frekari skoðun á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert