Arnór og Andri Rúnar á skotskónum

Arnór Ingvi Traustason skoraði tvö.
Arnór Ingvi Traustason skoraði tvö. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Ingvi Traustason átti virkilega góðan leik fyrir Malmö sem vann Kalmar örugglega, 4:0, í sænsku 1. deildinni í fótbolta í dag. Arnór lék allan leikinn og skoraði fyrsta og þriðja mark Malmö. 

Með mörkunum tvöfaldaði Arnór markafjölda sinn í deildinni á leiktíðinni og er hann kominn með fjögur mörk. Malmö er búið að vera á fínni siglingu í sænsku deildinni og er liðið í fjórða sæti með 43 stig, átta stigum minna en topplið AIK.

AIK vann 1:0-sigur á Hammarby í dag og var Haukur Heiðar Hauksson allan tímann á varamannabekknum. 

Andri Rúnar Bjarnason var svo hetja Helsingborg sem vann Frej, 1:0, á heimavelli í B-deildinni. Helsingborg er í toppsæti deildarinnar með 54 stig, tveimur meira en Falkenberg. Andri Rúnar er markahæsti leikmaður deildarinnar með 13 mörk, tveimur meira en samherji hans, Mamudo Moro. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert