Modric skákaði Ronaldo og er leikmaður ársins

Luka Modrid með verðlaun sín sem besti leikmaður heims.
Luka Modrid með verðlaun sín sem besti leikmaður heims. AFP

Króatinn Luka Modric, leikmaður Real Madrid, var nú rétt í þessu kjörinn knattspyrnumaður ársins í fyrsta sinn og tók hann við verðlaunum þess efnis á uppskeruhátíð FIFA í London.

Modric átti frábært tímabil með Real Madrid þar sem hann fagnaði sigri í Meistaradeildinni þriðja árið í röð. Hann fór svo alla leið í úrslitaleik heimsmeistaramótsins með Króatíu í sumar þar sem hann var jafnframt valinn besti leikmaður mótsins. Hann skoraði í fyrstu tveimur leikjum Króata á mótinu.

Modrid hafði betur í kjörinu í baráttu við Mohamed Salah, leikmann Liverpool, og Cristiano Ronaldo, fyrrverandi liðsfélaga sinn hjá Real Madrid. Ronaldo hefur verið kjörinn bestur fimm sinnum.

Atkvæðagreiðslan fór þannig fram að almenningur hafði 25% vægi, landsliðsþjálfarar höfðu 25% vægi, landsfyrirliðar 25% og valdir fjölmiðlamenn 25% vægi atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert