Aukin fjárframlög UEFA til kvennaknattspyrnu

Íslenskur kvennafótbolti mun hagnast meira frá UEFA.
Íslenskur kvennafótbolti mun hagnast meira frá UEFA. mbl.is/Kristinn Magnússon

Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur tilkynnt áform sín um að auka fjárframlög til kvennaknattspyrnu um 50% frá árinu 2020. Er það gert með það að leiðarljósi að knattspyrna verði vinsælasta íþróttagrein kvenna í Evrópu.

UEFA mun leggja fram 2,75 milljónir evra til sérsambanda sinna á ári til viðbótar við það sem hefði átt að vera. Eiga fjármunirnir að vera notaðir til verkefna sem tengjast kvennaknattspyrnu með beinum hætti. Þá á einnig að fjölga kvenþjálfurum í greininni.

Öll 55 knattspyrnusambönd Evrópu sem eru undir UEFA, meðal annars KSÍ, munu fá í það minnsta 150 þúsund evrur á ári, en áður var reiknað með að samböndin fengju 100 þúsund evrur. Það samsvarar því að KSÍ fái rúmar 20 milljónir króna í stað rúmlega 13 milljóna króna. Mun féð kom frá auknum tekjum sem lokakeppni Evrópumóts karla mun skapa UEFA.

„Það eru engin takmörk fyrir því hvað kvennaknattspyrna getur náð langt. Eitt af mínum helstu baráttumálum hefur verið að auka veg kvenna í fótbolta,“ sagði Aleksander Ceferin, forseti UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert