Lærisveinar Lagerbäck á mikilli siglingu

Norðmenn eru á góðu róli undir stjórn Lars Lagerbäck
Norðmenn eru á góðu róli undir stjórn Lars Lagerbäck AFP

Norskir lærisveinar Lars Lagerbäck höfðu betur gegn Búlgaríu á heimavelli í 3. riðli C-deildar í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld. Mohamend Elyounoussi skoraði sigurmarkið eftir rúmlega hálftíma leik. 

Norska liðið hefur verið á góðri siglingu og unnið sjö af síðustu átta leikjum sínum og er liðið á toppi riðilsins með níu stig, eins og Búlgaría en með betri markatölu. Kýpur er í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig eftir 1:1-jafntefli við Slóveníu á útivelli og er Slóvenía með eitt stig í fjórða og neðsta sæti. 

Tveir leikir fóru fram í B-deildinni. Í riðli 1 hafði Úkraína betur á móti Tékklandi á heimavelli sínum, 1:0, og í 4. riðli vann Wales 1:0-sigur á grönnum sínum frá Írlandi. Harry Wilson skoraði sigurmarkið beint úr aukaspyrnu, en hann skoraði einmitt fyrir Derby gegn Manchester United úr aukaspyrnu á dögunum. 

Í D-deildinni voru fjórir leikir á dagskrá. Kasakstan hafði betur gegn Andorra, 4:0, Georgía vann Lettland á útivelli, 3:0, Armenía skellti Makedóníu, 4:0 og Gíbraltar vann sinn annan keppnisleik í sögunni er liðið lagði Liechtenstein á heimavelli, 2:1. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert