Töpuðu óvænt á heimavelli

Glódís Perla Viggósdóttir leikur með Rosengård.
Glódís Perla Viggósdóttir leikur með Rosengård. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir og samherjar í sænska liðinu Rosengård biðu óvænt lægri hlut á heimavelli gegn Slavia Prag frá Tékklandi, 2:3, í Malmö í kvöld en þar mættust liðin í fyrri leik sínum í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Þar með þarf Rosengård væntanlega að vinna tveggja marka sigur í seinni leiknum í Prag eftir tvær vikur.

Slavia Prag, með stóran hluta tékkneska landsliðsins sem gerði 1:1 jafntefli við Ísland á Laugardalsvellinum í september, komst þrisvar yfir í leiknum. Veronika Pincová skoraði á 14. mínútu en Lisa-Marie Utland jafnaði fyrir Rosengård átta mínútum síðar. Tereza Kozárová kom Slavia yfir á ný á 36. mínútu.

Hin þýska Anja Mittag jafnaði aftur fyrir Rosengård á 52. mínútu en fimm mínútum síðar skoraði Petra Divisová með langskoti og Slavia komið í 3:2. Þrátt fyrir þunga sókn náði sænska liðið ekki að jafna. Glódís, sem lék allan leikinn með Rosengård, lagði m.a. upp gott færi fyrir Mittag sem náði ekk iað skora.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert