Er alveg sannfærður

Julen Lopetegui á Santiago Bernabeu í kvöld.
Julen Lopetegui á Santiago Bernabeu í kvöld. AFP

Julen Lopetegui, þjálfari Evrópumeistara Real Madrid, segist alveg sannfærður um að hann stýri Real Madrid þegar það mætir Barcelona í stórleik spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu um næstu helgi.

Eftir að hafa spilað fimm leiki í röð án sigurs hefur þess verið beðið að Lopetegui yrði rekinn en hann var við stjórnvölinn á Santiago Bernabeu í kvöld þegar Real Madrid vann 2:1 sigur gegn tékkneska liðinu Viktoria Plzen.

„Ég er alveg sannfærður um að ég verð á hliðarlínunni í El Clásico. Við unnum leikinn og ég er þegar byrjaður að hugsa um morgundaginn í undirbúningi okkar fyrir leikinn á sunnudaginn. Ég hefði viljað vinna meiri sannfærandi sigur en það mikilvægasta var að fá stigin þrjú og þetta gæti orðið vendipunkturinn fyrir okkur,“ sagði Lopetegui eftir leikinn.

Emilio Butragueno, íþróttastjóri Real Madrid, staðfesti við fréttamenn eftir leikinn að Lopetegui muni stýra liði Real Madrid í leiknum á móti Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert