Lítil pressa á City í Meistaradeildinni

Josep Guardiola.
Josep Guardiola. AFP

Katalóninn Pep Guardiola segir engan gera kröfu um að Englandsmeistararnir í Manchester City vinni Meistaradeild Evrópu.

Guardiola vann keppnina þegar hann stýrði Barcelona og veit hvað þarf til.

„Eitt af því sem er mikilvægt til að lið geti unnið þessa keppni er að ýtt sé við leikmönnum í baklandinu. Ekki bara knattspyrnustjórinn heldur þurfa allir hjá Manchester City að stefna að þessu. Enn sem komið er þá finnur maður ekki fyrir slíkri pressu. Maður finnur ekki fyrir því að stuðningsmenn liðsins geri þá kröfu að liðið vinni Meistaradeildina."

Guardiola hefur áður sagt að liðið hafi ekki verið nógu gott til að vinna keppnina í fyrra og stendur við það.

„Við munum gera allt sem við getum til að vinna keppnina en miðað við það sem blasti við mér á síðasta tímabili þá erum við ekki orðnir nógu góðir. Það er mín tilfinning. En það þýðir ekki að við munum ekki gera okkar besta,“ sagði Guardiola í útvarpsviðtali við BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert