„Aldrei hætta að berjast fyrir jafnrétti“

Sara Björk Gunnarsdóttir og Nilla Fischer í landsleik Íslands og …
Sara Björk Gunnarsdóttir og Nilla Fischer í landsleik Íslands og Svíþjóðar. Þær eru liðsfélagar hjá Wolfsburg. Ljósmynd/KSÍ

Nilla Fischer var í kvöld útnefnd besti leikmaður ársins í kvennaflokki í Svíþjóð við hátíðlega athöfn. Sigurræða hennar hefur vakið mikla athygli þar sem hún fer ofan í saumana á ójafnréttinu sem ríkir í knattspyrnunni.

Fishcer er 34 ára gömul og er liðsfélagi Söru Bjarkar Gunnarsdóttir hjá Wolfsburg. Hún mun þó halda til Svíþjóðar á næsta ári og ganga í raðir Linköping, þaðan sem hún fór árið 2013. Hún hefur unnið Meistaradeildina með Wolfsburg, þýsku deildina tvívegis og bikarinn þrívegis.

„Ég er mjög stolt af þessari viðurkenningu í kvöld og að vera valin ein af goðsögnunum í sænskri knattspyrnu. En nú vil ég nota þetta tækifæri og segja svolítið við allar stelpur um allan heim,“ sagði Fischer þegar hún tók við verðlaununum. Framhaldið á ræðu hennar vakti mikla athygli.

„Ég veit hvernig það er að vera strítt af strákunum fyrir að spila fótbolta. Því þú ert ekki nógu góð. Eða því þú ert einfaldlega betri en þeir. Ég veit hvernig það er þegar liðið þitt eða þjálfari stendur ekki við bakið á þér. Ég veit nákvæmlega hvernig það er. Óréttlætið er sárt,“ sagði hún og hélt áfram.

„Ef ég stæði hér í kvöld sem karl, með þennan feril að baki, þá þyrfti ég aldrei aftur að hafa áhyggjur af fjármálum á lífsleiðinni. Ekki börnin mín heldur. En við spilum fótbolta af því við elskum íþróttina. Og ég vil segja við allar stelpur: Ekki hætta að spila fótbolta. Aldrei hætta að berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Ekki vera þakklát fyrir það sem þú hefur því við erum mun meira virði en þetta.

Þið karlar. Það er tími til kominn að þið takið til málanna líka því jafnrætti gagnast okkur öllum. En við verðum að ná því í sameiningu. Hreint út sagt er ég komin með nóg. Takk fyrir mig!“ sagði Fischer að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert