Evrópumeistararnir á HM

Hollensku stelpurnar tryggðu sér sæti á HM 2019 í Frakklandi …
Hollensku stelpurnar tryggðu sér sæti á HM 2019 í Frakklandi í kvöld. AFP

Hollenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tryggði sér síðasta lausa Evrópusætið á HM 2019 í Frakklandi næsta sumar eftir 1:1-jafntefli gegn Sviss í Schaffhausen í kvöld. Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir þær hollensku en Anouk Dekker fékk að líta beint rautt spjald á 7. mínútu leiksins.

Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik en Vivianee Miedema kom hollenska liðinu yfir í upphafi síðari hálfleiks. Coumba Sow jafnaði metin fyrir Sviss á 71. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður en lengra komust þær svissnesku ekki.

Fyrri leik liðanna í Utrecht í Hollandi lauk með 3:0-sigri hollenska liðsins og Holland vinnur því einvígið, samanlagt 4:1. Evrópumeistararnir frá Hollandi fara því á HM næsta sumar en Sviss situr eftir með sárt ennið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert