Dramatískur sigur Króata á Spánverjum

Króatar unnu dramatískan sigur á Spánverjum í kvöld.
Króatar unnu dramatískan sigur á Spánverjum í kvöld. AFP

Króatía vann dramatískan 3:2-heimasigur á Spánverjum í 4. riðli A-deildar Þjóðadeildarinnar í fótbolta í kvöld. Tin Jedvaj skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartímans. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik lifnaði leikurinn við í síðari hálfleik og Andrej Kramaric kom Króatíu yfir á 54. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Dani Ceballos fyrir Spánverja en Tin Jedvaj kom Króötum aftur yfir á 69. mínútu. 

Í þetta skiptið tók það Spánverja níu mínútur að jafna og það gerði Sergio Ramos af vítapunktinum. Allt benti til þess að liðin myndu skipta með sér stigunum en þess í stað skoraði Jedvaj sitt annað mark og tryggði króatískan sigur. 

Spánverjar eru með sex stig og á toppi riðilsins, þrátt fyrir tapið, en England og Króatía koma þar á eftir með fjögur stig.

England fær heimsókn frá Króatíu á laugardaginn kemur og sigurliðið vinnur riðilinn og tapliðið fellur. Fari svo að England og Króatía geri markalaust jafntefli vinnur Spánn riðilinn og Króatía fellur, en verði skorað og leikurinn endar jafn, vinnur Spánn riðilinn og England fellur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert