Hélt það væri langt í þetta þegar ég sleit krossband

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir í leik með Stjörnunni í sumar.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir í leik með Stjörnunni í sumar. mbl.is/Hari

„Ég var samningslaus og Elísabet vissi af bæði því og áhuga mínum á að fara utan og spila. Hún hafði samband og spurði hvort ég vildi koma til Svíþjóðar,“ sagði knattspyrnukonan Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir um stuttan aðdraganda að félagsskiptum hennar til sænska úrvalsdeildarliðsins Kristianstad, sem Elísabet Gunnarsdóttir hefur þjálfað frá 2009.

Þórdís var í stóru hlutverki hjá Stjörnunni í sumar eftir eins árs fjarveru vegna meiðsla. „Þetta er stórt skref fyrir mig og eitt ef þeim markmiðum sem ég hef alltaf ætlað að ná. Ég hélt að það yrði langt í þetta þegar ég sleit krossband árið 2016, þá var markmiðið að fara út eftir það tímabil.“

„Ég lagði mjög hart að mér til að eiga gott tímabil síðasta sumar hér á Íslandi eftir erfitt meiðslaár og ég tel mig hafa komið sterkari til baka.“

Forréttindi að spila með Sif

Þórdís er 25 ára gömul og hefur áður spilað í sænsku B-deildinni með Älta árin 2014 og 2015. Hjá Kristianstad verður hún í góðum hópi Íslendinga en Elísabet þjálfar liðið og þá hefur Sif Atladóttir leikið með liðinu frá 2011. Björn Sigurbjörnsson er aðstoðarþjálfari liðsins. Einnig hefur landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir gert samning við Kristianstad en þær Þórdís þekkjast vel eftir að hafa spilað saman með yngri landsliðum Íslands.

„Þetta er frábær hópur af Íslendingum, ég hef heyrt góða hluti um Elísabetu sem þjálfara og Sif Atla er einn besti leikmaður sem Ísland hefur átt, það eru forréttindi að fá að spila með henni. Svo þekki ég Svövu og hef spilað með henni í öllum yngri landsliðum.“

„Ég ætla núna að einbeita mér að því að vinna mér inn sæti í liði Kristianstad. Ef ég spila vel þar mun það kannski gefa mér tækifæri hjá landsliðinu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert