Íslandsbaninn leikmaður ársins

Ahmed Musa í þann veginn að skora seinna mark sitt …
Ahmed Musa í þann veginn að skora seinna mark sitt og Nígeríu gegn Íslandi í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ahmed Musa hefur verið kjörinn knattspyrnumaður ársins 2018 í Nígeríu en hann kom heldur betur mikið við sögu þegar Nígería og Ísland mættust í lokakeppni HM í Volgograd í Rússlandi í sumar.

Musa skoraði þar bæði mörkin í 2:0 sigri Nígeríumanna og fyrir vikið varð hann fyrstur Nígeríumanna til að skora á tveimur lokamótum HM. Hann varð líka fyrsti Nígeríumaðurinn til að skora tvö mörk í leik á HM, gegn Argentínu árið 2014, og lék því sama leik gegn Íslandi fjórum árum síðar.

Musa er 26 ára gamall og lék lengi með CSKA Moskva, liðinu sem Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon leika nú með, síðast sem lánsmaður frá Leicester hluta síðasta tímabils. Hann var í röðum Leicester í tvö ár í millitíðinni en nú er hann kominn til Sádi-Arabíu og spilar með Al-Nassr. Musa hefur spilað 74 landsleiki fyrir Nígeríu og skorað 17 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert