Portúgal tryggði sér efsta sætið

Rui Patricío og Mário Rui fagna efsta sæti 3. riðils …
Rui Patricío og Mário Rui fagna efsta sæti 3. riðils í Mílanó í kvöld. AFP

Portúgal tryggði sér efsta sæti 3. riðils A-deildar Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu í kvöld eftir markalaust jafntefli gegn Ítalíu á San Siro-vellinum í Mílanó. Leikurinn var afar tíðindalítill en Ítalir voru sterkari aðilinn í leiknum og áttu tíu marktilraunir gegn fjórum marktilraunum Portúgals.

Portúgal er í efsta sæti 3. riðils með 7 stig eftir þrjá leiki en Ítalir eru í öðru sætinu með 5 stig eftir fjóra leiki. Portúgal fær Pólland, sem er í neðsta sæti riðilsins með 1 stig, í heimsókn á þriðjudaginn næsta í lokaleik riðilsins. Pólverjar eru fallnir í B-deildina ásamt Þjóðverjum og Íslendingum en England eða Króatía verður fjórða liðið sem fellur.

Portúgal endar því í efsta sæti 3. riðils og er komið áfram í fjögurra liða úrslitakeppnina sem fer fram næsta vor, eina liðið sem hefur gulltryggt sér sæti þar enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert