Portúgal fær fyrstu úrslitakeppnina

Rui Patricio markvörður og varnarmaðurinn Mario Rui fagna í lok …
Rui Patricio markvörður og varnarmaðurinn Mario Rui fagna í lok leiks Portúgala og Ítala í gærkvöld þar sem 0:0 jafntefli tryggði Portúgölum sigur í 3. riðli. AFP

Portúgal verður að öllu óbreyttu gestgjafinn í fyrstu úrslitakeppni Þjóðadeildar UEFA næsta sumar en þá spila sigurliðin í riðlunum fjórum í A-deild keppninar til úrslita um meistaratitil deildarinnar.

BBC segir að Portúgal, Ítalía og Pólland, sem öll voru saman í riðli í A-deildinni, hafi verið þær þrjár þjóðir sem hafi sóst eftir því að halda úrslitakeppnina. UEFA hafi því ákveðið að það yrðu úrslit riðilsins sem réðu því hvert þeirra yrði gestgjafinn.

Portúgalar tryggðu sér sigur og sæti í fjögurra liða úrslitunum með markalausu jafntefli á Ítalíu í gærkvöld og þar með er það talið formsatriði að UEFA feli þeim að halda keppnina á fundi framkvæmdastjórnar UEFA í Dublin 3. desember.

Úrslitakeppnin verður með því sniði að leikin verða undanúrslit 5. og 6. júní og sigurliðin mætast í úrslitaleik 9. júní.

Portúgal er eina liðið sem er búið að tryggja sér sæti í fjögurra liða úrslitunum en úrslit í hinum riðlunum ráðast í dag og á morgun. Frakkland eða Holland vinnur 1. riðil, Belgía eða Sviss vinnur 2. riðil og öll þrjú liðin í 4. riðli, Spánn, England og Króatía, geta unnið hann fyrir lokaleikinn milli Englands og Króatíu á Wembley í dag.

Portúgal er um leið fyrsta liðið úr A-deild sem gulltryggir sér sæti í umspili fyrir EM 2020, fari svo að liðinu lánist ekki að enda í öðru tveggja efstu sætanna í sínum undanriðli EM.

Allir sigurvegarar riðla í Þjóðadeildinni eru á sama hátt öruggir um að komast í EM-umspil. Þannig eru Bosnía, Danmörk og Úkraína örugg með umspilssæti úr B-deild, Finnland úr C-deild og Georgía úr D-deild. Þessi lið eru jafnframt örugg með að fá ekki lið úr efri deild með sér í umspili þannig að Ísland gæti aldrei mætt neinu þeirra í umspili, yrði það hlutskipti Íslands að reyna að fara þá leiðina inn á EM 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert