Holland áfram eftir tvö mörk í blálokin

Virgil van Dijk fagnar markinu örlagaríka í kvöld.
Virgil van Dijk fagnar markinu örlagaríka í kvöld. AFP

Hollendingar tryggðu sér í kvöld farseðilinn í undanúrslit Þjóðadeildarinnar í knattspyrnu eftir hreint ótrúlegt jafntefli gegn Þjóðverjum í 1. riðli A-deildarinnar. Holland skoraði tvö mörk á síðustu fimm mínútunum og tryggði sér 2:2 jafntefli, sem skilaði þeim í toppsæti riðilsins.

Þjóðverjar voru fallnir úr 1. riðli A-deildarinnar eftir tap fyrir Frökkum og Hollendingum í síðustu tveimur leikjum. Hollendingar voru aftur á móti í baráttu við Frakka um toppsæti riðilsins og farseðilinn í undanúrslit, en þurftu að minnsta kosti stig í kvöld. Tvö þýsk mörk á fyrstu 20 mínútum leiksins frá Timo Werner og Leroy Sané gerðu róðurinn hins vegar þungan fyrir hollenska liðið.

Rétt rúmum fimm mínútum fyrir leikslok náði Quincy Promes hins vegar að minnka muninn fyrir Holland og hleypa spennu í leikinn. Hollendingar sóttu afar stíft á lokamínútunum og miðvörðurinn Virgil van Dijk, sem brá sér í sóknina undir lokin, skoraði á 90. mínútu og tryggði Hollandi stigið sem kom þeim upp í efsta sætið. Frakkar sitja hins vegar eftir með sárt ennið í öðru sæti. Þjóðverjar eru fallnir í B-deildina.

Það verða því Holland, Sviss, England og Portúgal sem munu spila um sigurinn í Þjóðadeildinni næsta sumar.

Þessar fjórar þjóðir eru um leið þær fyrstu sem tryggja sér sæti í umspili A-deildar fyrir EM 2020, fari svo að þeim takist ekki að ná öðru tveggja efstu sætanna í sínum riðlum undankeppninnar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert