Ísland með verstan árangur í A-deild

Gylfi Þór Sigurðsson svekktur eftir tap fyrir Belgíu á Laugardalsvelli …
Gylfi Þór Sigurðsson svekktur eftir tap fyrir Belgíu á Laugardalsvelli í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar einum leik er ólokið í A-deild Þjóðadeildarinnar í knattspyrnu er þó þegar ljóst að Ísland mun standa uppi með verstan árangur allra liða í riðlunum fjórum.

Ísland skoraði aðeins eitt mark, fékk á sig 13 og tapaði öllum fjórum leikjum sínum í A-deildinni. Þýskaland hafði aðeins skorað eitt mark þar til í lokaleiknum sínum gegn Hollandi í kvöld sem fór 2:2 og bættu því Þjóðverjar tölfræði sína þar þrátt fyrir að falla úr A-deild.

Króatar eru einnig fallnir, en þeir fengu þó fjögur stig og skoruðu fjögur mörk sem dugði þeim þó ekki. Þeir fengu á sig 10 mörk eða næst flest allra á eftir Íslandi.

Pólverjar eru einnig fallnir, en þeir mæta Portúgal í lokaleik A-deildarinnar á morgun. Pólverjar eru með eitt stig fyrir leikinn, hafa skorað þrjú mörk og fengið á sig fimm svo nokkuð ljóst þykir að þeir munu heldur ekki enda með verri árangur en Ísland.

Tvö neðstu lið A-deildar verða í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið  verður í undankeppni EM 2020 í Dublin 2. desember. Ljóst er að Ísland verður annað þeirra en hitt verður Pólland eða Þýskaland, eftir því hvernig leikur Portúgala og Pólverja fer annað kvöld. Nái Pólverjar stigi verða þeir í efsta styrkleikaflokki og senda Þjóðverja með Íslandi niður í annan flokk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert