Lars stýrði Noregi upp um deild

Daninn Yussuf Poulsen á skot að marki Íra í kvöld. …
Daninn Yussuf Poulsen á skot að marki Íra í kvöld. Danir eru á leið í A-deildina en Norðmenn eru á leið upp í B-deildina. AFP

Norska karlalandsliðið í knattspyrnu, undir stjórn Lars Lagerbäck, tryggði sér í kvöld sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar eftir að hafa tryggt sér efsta sætið í sínum riðli í C-deildinni.

Noregur vann þá 2:0 útisigur á Kýpur, en Ola Kamara skoraði bæði mörkin. Búlgaría gerði á meðan 1:1 jafntefli við Slóveníu og því voru það Norðmenn sem tóku efsta sætið. Þeir fengu 13 stig í sex leikjum en Búlgaría fékk 11 stig. Kýpur varð í þriðja sæti með fimm stig en Slóvenar falla í D-deildina með þrjú stig.

Í B-deildinni féllu Slóvakar úr 1. riðli eftir tap fyrir Tékkum í grannaslag, 1:0. Slóvakar fengu þrjú stig í riðlinum, Tékkar sex en Úkraína níu og spilar næst í A-deild. Danir eru sömuleiðis á leið í A-deildina úr 4. riðli B-deildar, en það var ljóst fyrir markalaust jafntefli þeirra við Íra í kvöld. Írar falla en Wales hafnaði í þriðja sæti riðilsins og situr eftir.

Í D-deildinni vann Georgía öruggan sigur í 1. riðli eftir 2:1-sigur á Kasakstan í kvöld. Georgía tapaði ekki leik í riðlinum og fékk 16 stig en Kasakstan kom næst með sex stig. Lettland og Andorra gerðu markalaust jafntefli og fengu fjögur stig hvort.

Í 4. riðli D-deildar er það Makedónía sem vann með 15 stig eftir 4:0 sigur á Gíbraltar í kvöld. Liechtenstein og Armenía gerðu 2:2 jafntefli í riðlinum, en Armenar höfðu fyrir lokaumferðina í kvöld enn möguleika á efsta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert