Risadeildin skáldsaga eða draumur

Juventus og Manchester United verða áfram innan UEFA samkvæmt Ceferin …
Juventus og Manchester United verða áfram innan UEFA samkvæmt Ceferin og Agnelli. AFP

Áform um stofnun nýrrar „risadeildar“ í evrópskum fótbolta, sem kæmi í stað Meistaradeildar Evrópu og yrði til þess að stærstu félög álfunnar myndu hætta í sínum heimadeildum, er ekki lengur raunhæfur kostur og aðeins hægt að tala um hugmyndirnar sem skáldsögu eða draum.

Þetta fullyrða Aleksander Ceferin, forseti UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, og Andrea Agnelli, stjórnarformaður ítalska meistarafélagsins Juventus og samtaka evrópskra knattspyrnufélaga, ECA, í viðtali við BBC.

Der Spiegel birti fyrir skömmu leynileg skjöl þar sem fjallað var um áætlanir stærstu félaga Evrópu um að stofna slíka deild og það átti jafnvel að gerast strax í þessum mánuði, en keppni í henni að hefjast 2021.

„Þessi risadeild verður ekki að veruleika. Núna má  segja að hún sé lengur ekki annað en skáldsaga, eða þá draumur," sagði Ceferin.

„Ég get staðfest að við höfum aldrei séð, aldrei rætt og aldrei tekið þátt í því að setja saman umrætt skjal,“ sagði Agnelli.

Samningar um núverandi keppnisfyrirkomulag UEFA, með Meistaradeild Evrópu og Evrópudeild UEFA, rennur út árið 2021 og þá átti nýja deildin að taka við, samkvæmt skjölunum. Ceferin og Agnelli segjast báðir fullvissir um að stóru félögin muni halda sér innan UEFA og viðræður séu í gangi um ásættanlegar lausnir – m.a. hvernig hægt væri að breyta Meistaradeild Evrópu og gera hana enn arðvænlegri.

„Við erum með nokkrar hugmyndir. Allt sem ég get sagt er að risadeildin er út úr myndinni. Það verða allir með. Og öll félög munu eiga möguleika á að taka þátt í öllum Evrópumótum,“ sagði Ceferin.

Reiknað er með að þriðja Evrópukeppnin muni bætast við árið 2021 en þá verði fækkað í riðlakeppni Evrópudeildarinnar um sextán lið þannig að Meistaradeildin, Evrópudeildin og nýja keppnin verði með 32 liðum hver um sig þegar undankeppni er lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert