Góð byrjun hjá Gunnhildi og Fanndísi

Gunnhildur Yrsa í leik með Adelai­de United.
Gunnhildur Yrsa í leik með Adelai­de United. Ljósmynd/Twitter-síða Adelai­de United

Landsliðskonurnar Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir voru í sigurliði Adelai­de United þegar það hrósaði 2:0 sigri gegn Canberra í áströlsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í morgun.

Gunnhildur Yrsa lék allan tímann á miðjunni og Fanndís lék á vinstri kantinum allt fram á 88. mínútu þegar henni var skipt út af í stöðunni 2:0. Báðar voru nálægt því að skora í leiknum. Gunnhildur átti skot rétt fram hjá markinu eftir sendingu frá Fanndísi og Fanndís átti gott skot sem fór naumlega fram hjá stönginni.

Hin bandaríska Veronica Latsko skoraði fyrra markið á 27. mínútu en það síðara var sjálfsmark á 85. mínútu leiksins en fyrra markið má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

Adelai­de United hefur farið vel af stað en eftir þrjá leiki er liðið með 7 stig í 1.-2. sæti og er með markatöluna 3:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert