Tökum enga áhættu með Alfreð

Alfreð fagnar marki með Augsburg.
Alfreð fagnar marki með Augsburg. Ljósmynd/Augsburg

„Við tökum enga áhættu með Alfreð,“ segir Manuel Baum, þjálfari þýska knattspyrnuliðsins Augsburg, en liðið gæti spilað án síns aðalmarkaskorara þegar það tekur á móti Eintracht Frankfurt í þýsku 1. deildinni á laugardaginn.

Alfreð meiddist í upphitun fyrir leikinn á móti Belgum í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu og spilaði ekki, né í vináttuleiknum á móti Katar.

„Alfreð varð fyrir lítils háttar vöðvameiðslum. Þetta er ekki alvarlegt en við vitum ekki hvort hann verði tilbúinn til að spila á móti Frankfurt á laugardaginn. Hann mun aðeins spila ef hann verður 100% klár,“ segir Baum á vef félagsins.

Alfreð hefur farið á kostum með Augsburg síðustu vikurnar og hefur skorað 7 mörk í síðustu sex leikjum liðsins í deildinni en hann missti af fyrstu fimm leikjunum vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert