Ánægður með móttökurnar í Katar

Sheikh Khalifa Bin Hamad Al Thani, forseti Al Arabi, og …
Sheikh Khalifa Bin Hamad Al Thani, forseti Al Arabi, og Heimir Hallgrímsson á fundinum í dag. Ljósmynd/@alarabi_club

„Ég er mjög ánægður með að vera kominn til Katar og með þær móttökur sem ég hef fengið hér í Doha, og vonast til að geta hjálpað liði Al Arabi og stuðningsmönnum þess til að ná árangri,“ sagði Heimir Hallgrímsson, nýráðinn þjálfari katarska knattspyrnuliðsins Al Arabi, á fréttamannafundi í Doha í dag.

„Þetta verður ekki auðvelt, það er mikið verk að vinna og ég hef farið yfir það með stjórn félagsins og samstarfsmönnum. Þetta verður mjög ólíkt því að þjálfa íslenska landsliðið því þar hafði ég aðeins leikmennina til umráða í skamman tíma í kringum leiki. Vinnan hjá félagsliði er allt öðruvísi og þar þarf ég að takast á við margs konar tæknileg og taktísk verkefni,“ sagði Heimir á fundinum.

„Ég sá liðið spila gegn Umm Salal en þekki ekki mikið til deildarinnar í Katar. Ég mun kynnast henni smám saman á næstunni, ásamt því að kynnast leikmönnunum og liðinu á æfingum þar sem ég sé betur hvað þarf að gera til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að,“ sagði Heimir Hallgrímsson.

Sheikh Khalifa Bin Hamad Al Thani, forseti Al Arabi, sagði á fundinum að ráðning Heimis væri mikilvægt skref í uppbyggingu félagsins.

„Við óskum honum góðs gengis og að hann nái að framfylgja markmiðum Al Arabi. Við höfum sett stefnuna á að vera aftur komnir í baráttuna um verðlaun á næstu þremur árum,“ sagði forsetinn.

Fram kom á fundinum að samningurinn við Heimi væri til vorsins 2020, eða í hálft annað ár, með möguleika á framlengingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert