AC Milan féll úr leik í Evrópudeildinni

Guðlaugur Victor Pálsson fyrirliði Zürich með boltann í leiknum gegn …
Guðlaugur Victor Pálsson fyrirliði Zürich með boltann í leiknum gegn Ludogorets í kvöld. AFP

Arsenal er taplaust í 22 leikjum í röð í öllum keppnum en liðið lagði Qarabag 1:0 í lokaumferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu á Emirates í kvöld.

Alexandre Lacazette skoraði sigurmark Arsenal á 16. mínútu leiksins og Arsenal lauk keppni með 16 stig úr leikjunum sex. Qarabag endaði í botnsætinu með aðeins 3 stig en landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson var ekki í leikmannahópi Qarabag í kvöld.

Matthías Vilhjálmsson fékk að spreyta sig í byrjunarliði norsku meistaranna í Rosenborg í fyrsta skipti í langan tíma en hann lék í 83 mínútur í 1:1 jafntefli gegn Leipzig í Þýskalandi. Þetta var fyrsta og eina stig Rosenborg í riðlinum. Leipzig missti þar með af sæti í 32-liða úrslitunum en með sigri hefði liðið sent Celtic úr leik. Skosku meistararnir töpuðu á heimavelli fyrir Salzburg 2:1 en þeir náðu öðru sætinu í riðlinum.

Guðlaugur Victor Pálsson og félagar hans í Zürich voru þegar búnir að tryggja sér sæti í 32-liða úrslitunum en liðið gerði í kvöld 1:1 jafntefli við Luduogorets á útivelli í Búlgaríu þar sem Guðlaugur Victor lék allan tímann.

Sjöfaldir Evrópumeistarar AC Milan féllu úr leik eftir 3:1 tap á útivelli gegn Olympiacos. Liðin enduðu með 10 stig en gríska liðið hafði betur í innbyrðisviðureignum og fer áfram upp úr riðlinum ásamt Real Betis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert