Björn Daníel laus frá AGF

Björn Daníel Sverrisson í búningi AGF.
Björn Daníel Sverrisson í búningi AGF. Ljósmynd/agf.dk

Danska knattspyrnufélagið AGF frá Árósum tilkynnti fyrir stundu að miðjumaðurinn Björn Daníel Sverrisson væri laus allra mála frá félaginu en flest bendir til þess að hann gangi til liðs við sitt gamla félag, FH, fyrir næsta tímabil. Hann hefur einnig verið orðaður við Val.

Björn hefur leikið með AGF í hálft þriðja ár en hann kom þangað síðsumars 2016 frá Viking Stavanger í Noregi, eftir hálft þriðja ár þar. Björn spilaði með FH til þess tíma en hann lék 108 úrvalsdeildarleiki fyrir Hafnarfjarðarliðið og skoraði 32 mörk, og varð þrisvar Íslandsmeistari með félaginu.

„Björn hefur verið tryggur liðsmaður okkar og á fyrsta tímabilin sínu skoraði hann nokkur afar mikilvæg mörk í umspili um sæti í deildinni, sem allir muna enn eftir. Síðustu tvö árin hefur hann ávallt verið klár í slaginn þegar á hefur þurft að halda, líka þegar þurft hefur að fylla í skörð annars staðar á vellinum en hann er vanur að spila. Við erum mjög ánægðir með veru hans hjá félaginu og óskum honum góðs gengis á ferlinum,“ segir Peter Christiansen íþróttastjóri AGF á vef félagsins.

Björn hefur aðeins komið við sögu í 7 leikjum AGF í úrvalsdeildinni á þessu tímabili, var í byrjunarliði í fimm af fyrstu sjö leikjum tímabilsins en setið á varamannabekknum síðan. Hann spilaði 39 úrvalsdeildarleiki með liðinu og skoraði 4 mörk, og lék alls 45 mótsleiki með AGF.

„Ég vil spila, og það er ekkert leyndarmál að ég hef ekki spilað mikið með AGF í seinni tíð. En ég hef notið þess að vera í þessu félagi og samverunnar með liðsfélögunum, og hef verið félaginu trúr. En ég er ekkert frábrugðinn öðrum fótboltamönnum og nú ætla ég að finna mér lið þar sem ég fæ að spila meira. Þó ég hefði viljað spila meira hef ég verið mjög ánægður hjá AGF. Þetta er gott félag með góðu fólki í og í kringum liðið, og ég óska félaginu og stuðningsfólki þess alls hins besta í framtíðinni,“ segir Björn Daníel á vef AGF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert