Samningur við Hannes framlengdur

Hannes Þ. Sigurðsson, fyrir miðju, ásamt forráðamönnum Deisenhofen.
Hannes Þ. Sigurðsson, fyrir miðju, ásamt forráðamönnum Deisenhofen. Ljósmynd/Deisenhofen

Þýska knattspyrnufélagið Deisenhofen hefur framlengt samning sinn við þjálfarann Hannes Þ. Sigurðsson til loka keppnistímabilsins 2020.

Hannes tók við þjálfun liðsins síðasta sumar og hefur gengið vel í vetur. Félagið leikur í sjöttu efstu deild í Þýskalandi, í hinni svokölluðu Landesligu í Bæjaralandi, og er þar í baráttu um að fara upp um deild og upp í „Bayernliguna“ sem er efsta deild áhugamanna í suðurhluta Þýskalands. Þar fyrir ofan eru síðan atvinnudeildirnar fjórar.

Deisenhofen er í þriðja sæti deildarinnar með 41 stig eftir 21 leik og á heimasíðu félagsins er sagt að Hannes sé afar metnaðarfullur og ákveðinn þjálfari en þetta er hans fyrsta lið á þjálfaraferlinum.

„Ég tel að það að við skulum strax framlengja samninginn við Hannes Sigurðsson sé gott merki fyrir allt félagið. Við viljum komast lengra og vera komnir í Bayernliguna árið 2020. Í Hannesi erum við tryggja okkur áfram fyrir næsta tímabil frábæran þjálfara og félaga, og það er tilhlökkunarefni þegar liðið fer aftur af stað eftir vetrarfríið," segir Alex Schleicher, framkvæmdastjóri liðsins, á heimasíðunni.

Lið Deisenhofen með Hannes fyrir miðju í annarri röð.
Lið Deisenhofen með Hannes fyrir miðju í annarri röð. Ljósmynd/Deisenhofen

Hann­es, sem er 35 ára gam­all og lék 13 lands­leiki fyr­ir Íslands hönd, er einn víðförlasti knatt­spyrnumaður Íslands. Hann lék frá 2000 til 2016 með FH, Vik­ing í Nor­egi, Stoke á Englandi, Brønd­by í Dan­mörku, Sundsvall í Svíþjóð, Spar­tak Nalchik í Rússlandi, Atyrau í Kasakst­an, Mjäll­by í Svíþjóð, Grödig í Aust­ur­ríki, Sand­nes í Nor­egi, Re­gens­burg í Þýskalandi og síðast var hann spilandi aðstoðarþjálf­ari hjá Eger­sund í norsku C-deild­inni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert