Matthías á leið til Vålerenga

Matthías Vilhjálmsson
Matthías Vilhjálmsson Ljósmynd/rbk.no

Matthías Vilhjálmsson er á leið frá norska meistaraliðinu Rosenborg til norska úrvalsdeildarliðsins Vålerenga.

Norsku liðin Lilleström, Start og Tormsö ásamt liðum utan Noregs hafa sýnt áhuga á að fá Matthías til liðs við sig en líklegt er talið að hann fari til Vålerenga.

Matthías kom til Rosenborg frá Start sumarið 2015 og hefur fjórum sinnum fagnað norska meistaratitlinum með Rosenborg og hefur unnið bikarkeppnina í þrígang með liðinu.

Matthías, sem er 31 árs gamall og fyrrverandi leikmaður FH, hefur verið óheppinn með meiðsli frá því hann kom til Rosenborg og hann varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í ágúst 2017.  Á síðustu leiktíð sat hann mikið á bekknum og kom aðeins við sögu í sjö leikjum með liðinu í úrvalsdeildinni.

Einn Íslendingur er í liði Vålerenga en það er landsliðsmaðurinn Samúel Kári Friðjónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert