Ákveðið að halda leit áfram

Emiliano Sala er enn saknað.
Emiliano Sala er enn saknað. AFP

Eftir samráðsfund björgunaraðila og yfirvalda í morgun var ákveðið að halda áfram leit að flugvélinni sem flutti flugmann ásamt Emiliano Sala, nýjasta leikmanni Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, og hvarf yfir Ermarsundi á mánudag.

Eftir að leit var hætt í gær vegna myrkurs var það gefið út að ekki hefði verið tekin ákvörðun hvort og þá hvernig áframhaldandi leit yrði háttað. Eftir fund í morgun var ákveðið að fara út á ný, en nú er ekki lengur talað um björgunaraðgerð heldur nauðsyn þess að finna líkamsleifar. Engar líkur eru taldar á því að mennirnir séu á lífi.

„Meira að segja manneskja í algjöru toppformi myndi ekki lifa af nema í nokkra klukkutíma í sjónum,“ sagði John Fitzgerald, sem stýrir leitinni, í gær. Enn er þó haldið í þá von að Sala og flugmaðurinn hafi komist í björgunarbát.

Leitin í dag mun fyrst og fremst fara fram við strendur eyjanna Jersey og Guernsey, en vélin hvarf af ratsjám á þeim slóðum. Leitin í gær bar engan árangur, en seint á þriðjudag fannst brak í sjónum sem er þó ekki staðfest að sé úr vélinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert