Sala hafnaði fararmáta Cardiff

Stór mynd af Emiliano Sala er fyrir utan æfingasvæði Nantes, …
Stór mynd af Emiliano Sala er fyrir utan æfingasvæði Nantes, þar sem fólk hefur komið með blóm og vottað virðingu sína. AFP

Emiliano Sala, nýjasti leikmaður Cardiff í ensku úrvalsdeildinni sem ekkert hefur spurst til síðan lítil flugvél sem hann var í hvarf yfir Ermarsundi á mánudagskvöld, ákvað sjálfur að fara á milli Nantes í Frakklandi og Wales á þennan hátt.

Þetta segir Mehmet Dalman, stjórnarformaður Cardiff, en hann segir Sala hafa hafnað þeim ferðatilhögunum sem félagið hefði boðið honum. Sala skrifaði undir hjá Cardiff á laugardag en fór aftur til Nantes til þess að ganga frá síðustu lausu endunum og kveðja liðsfélagana. Hann átti svo að mæta á fyrstu æfingu hjá liðinu á þriðjudag.

Umræðan hefur verið á þá leið að undarlegt sé að ferðast á milli Nantes og Cardiff, yfir Ermarsundið, í lítilli eins hreyfils vél. Hefur forráðamönnum Cardiff verið kennt um lélegan fararkost fyrir Sala, en Dalman segir það af og frá.

„Við skoðuðum þetta vel og Cardiff bar skylda til að bjóða honum almennt farrými á milli. Það þýddi að hann hefði þurft að taka lest frá Nantes til Parísar, fljúga þaðan með áætlunarflugi til Lundúna og keyra svo til Cardiff. Hann vildi frekar græja beint flug á eigin vegum til þess að verða fljótari á leiðinni,“ er haft eftir Dalman hjá Sky.

Hann segir hug stuðningsmanna Cardiff vera hjá Sala, en þeir sem stjórna leitinni að honum og flugmanninum segja engar líkur vera á því að þeir finnist á lífi. Ákvörðun um hvort og þá hvernig áframhaldandi leit verður háttað verður tekin snemma í dag.

„Þetta hafa verið erfiðir dagar en mikill samhugur hefur verið hjá knattspyrnuheiminum. Ekki bara hjá Cardiff, heldur um allan heim. Við erum þakklát fyrir allan samhug og höldum áfram að biðja og vona það besta. Maður verður samt að vera raunsær og við vitum að þetta lítur ekki vel út. Þetta er skelfilegt mál,“ sagði Dalman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert